Ávarp stjórnarformanns og forstjóra

Núverandi ástand er óviðunandi og mun það einungis versna og kostnaður samfélagsins aukast ef ekki verður á allra næstu árum ráðist í styrkingu og frekari uppbyggingu kerfisins

Knýjandi þörf á stefnumótun

Rekstur Landsnets gekk vel á árinu 2013 og nam hagnaður ársins 2.183 mkr. Tekjur félagsins námu 13.874 mkr. og var veltuaukning á milli ára um 12%.

Gjaldskrá dreifiveitna hefur tekið litlum breytingum á undanförnum árum og er töluvert undir almennri verðlagsþróun. Gjaldskrá stórnotenda, sem er í Bandaríkjadölum, var hækkuð í byrjun árs 2013 eftir lækkunarferli síðustu ára sem að mestu var vegna endurgreiðslu gengishagnaðar, sem myndaðist innan tekjumarka í framhaldi af gengisfalli krónunnar síðla árs 2008. Var flutningsgjaldskráin leiðrétt til samræmis við tekjumörk félagsins og er nú sambærileg í Bandaríkjadölum við það sem hún var í byrjun árs 2008. Ekki voru gerðir nýir flutningssamningar á árinu en á grundvelli eldri samninga jókst magn fluttrar orku um 2,9%.

Vaxtaberandi skuldir félagsins eru um 56.003 mkr., þar af 88,5% í íslenskum krónum. Um 79% af heildarlangtímaskuldum félagsins eru stofnlán frá móðurfélagi, sem er afborgunarlaust til ársins 2020 og hefur það áhrif á handbært fé félagsins. Á árinu var samþykkt ný fjármögnunarstefna sem tekur mið af tekjum félagsins og verður unnið að breyttri fjármagnsskipan samkvæmt henni á næstu árum.

Arðsemi félagsins er ákvörðuð í tekjumörkum og er afkoma ársins í takt við það. Leyfð arðsemi eigin fjár félagsins er ákveðin innan tekjumarka og á grundvelli ákveðins eiginfjárhlutfalls en tekjumörkin ákvarðast af Orkustofnun samkvæmt ákvæðum raforkulaga. Hlutfall eigin fjárs í tekjumörkum er hærra en fé félagsins er í raun og er félaginu þannig gert kleift að byggja upp eigið fé sitt til samræmis við forsendur tekjumarkanna, sem er mjög mikilvægt þannig að eigið fé félagsins verði svipað og sambærilegra félaga í nágrannalöndunum.
Eigið fé Landsnets er 19,9% í lok árs og er í fyrsta skipti frá stofnun að ná upphaflegu eiginfjárhlutfalli.

Blikur á lofti í rekstrinum

Fjöldi truflana í flutningskerfinu var svipaður og undanfarin ár en straumleysi varð mun minna en árið áður eða í 17 mínútur. Þó eru blikur á lofti varðandi almennan rekstur flutningskerfisins sem sést best á því að á árinu þurfti 23 sinnum að skipta kerfinu upp í eyjar til að verja það áföllum og til að lágmarka áhættu í rekstri þess. Skerðingar vegna flutningstakmarkana voru virkar stóran hluta ársins þannig að núverandi ástand er óviðunandi og mun það einungis versna og kostnaður samfélagsins aukast ef ekki verður á allra næstu árum ráðist í styrkingu og frekari uppbyggingu kerfisins.
Veikleikar kerfisins koma skýrt fram í því að skerða þurfti orkuflutning á milli Norður- og Suðurlands verulega og tíðar uppskiptingar kerfisins vegna óstöðugleika höfðu áhrif á spennugæðin hjá fjölda neytenda. Vandamál í rekstri flutningskerfisins utan Suðvesturlands hafa þannig farið vaxandi og er svo komið að alvarleg tjón hafa orðið hjá viðskiptavinum fyrirtækisins vegna spennu- og aflsveiflna í kjölfar truflana. Bætur Landsnets vegna þessa nema tugum milljóna á síðasta ári og hefur umfang þeirra og tíðni aukist ár frá ári.

„Flöskuhálsar“ milli Norður- og Suðurlands valda því að orkuvinnslugeta raforkukerfisins er minni en hún þyrfti að vera þar sem framleiðendur geta ekki samkeyrt vatnsmiðlanir á hagkvæmasta hátt í daglegum rekstri eða þegar vatnsbúskapur einstakra svæða krefst þess.
Þetta veldur minni hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins og gerir flutningskerfinu ómögulegt að bregðast við meiriháttar áföllum sem upp geta komið við bilanir í flutningskerfinu eða virkjunum. Þá eru vaxandi orkutöp í flutningskerfinu kostnaðarsöm.

Landsnet hefur lagt ríka áherslu á að auka rekstraröryggi í landshlutakerfunum. Þannig hefur kerfið á Austurlandi verið styrkt með spennuhækkun og stækkun aðveitustöðva. Á Vestfjörðum er verið að reisa ný tengivirki á Ísafirði og í Bolungarvík þar sem bæði virkin voru á snjóflóðasvæðum en í tengslum við þetta verkefni er verið að reisa nýja sjálfvirka 10 MW varaaflsstöð í Bolungarvík. Nýr sæstrengur var lagður til Vestmannaeyja þar sem eldri strengur var í slæmu ástandi. Nýtt tengivirki verður byggt á Akranesi og eru fleiri tengivirki á áætlun víða um land á næstu árum. Landsnet mun áfram vinna að verkefnum sem hafa það að markmiði að gera rekstraröryggi landshlutakerfanna sambærilegt við það sem er annar staðar. Fjárfestingar á tímabili 2011-2014 í landshlutakerfunum eru um 7 milljarðar króna.

Landsnet hefur tekist á við vandkvæði í rekstri flutningskerfisins með nýsköpun að leiðarljósi og innleiðingu hátæknilausna og þannig dregið úr alvarlegum vandamálum í rekstri þess og lágmarkað straumleysi sem annars hefði orðið. Dæmi um þetta er:

» Nýtt stýrt þéttavirki á Grundartanga sem jafnar út spennusveiflur í kerfinu, eykur stöðugleika þess og flutningsgetu.

» Endurnýjun varnarbúnaðar á byggðalínunni.
» Skiptingar á kerfinu upp í eyjar til að draga úr afleiðingum truflana með sjálfvirknibúnaði og fjarskiptum.
» Ítarlegar greiningar og áætlanir vegna erfiðs reksturs.
» Rannsóknar- og þróunarverkefni sem miða að því að innleiða áhættustýringu í rauntímarekstri kerfisins en þar er um að ræða nokkur verkefni sem unnið er að í samvinnu við erlend flutningsfyrirtæki og háskóla.

Með áðurnefndum aðgerðum hefur tekist að draga úr alvarlegum áföllum en nú er svo komið eins og framan greinir að lengra verður vart gengið í þessum efnum og komið að þeim tímapunkti að þörf er verulegrar styrkingar á meginflutningskerfinu ef rekstraröryggi þess á ekki að minnka umtalsvert á komandi árum.

Stjórnvöld þurfa að höggva á hnútinn

Landsnet hefur stefnt að því undanfarin ár að styrkja flutningskerfið verulega en vegna deilna um jarðstrengi í stað loftlína hefur fyrirtækið ekki getað styrkt kerfið á Norður- og Austurlandi eins og staðið hefur til. Fjárfestingar síðustu ára hafa því einkum falist í að leysa staðbundnar flutningstakmarkanir en ekki takmarkanir í meginflutningskerfinu sem hafa víðtækari áhrif.
Á síðasta ári jókst orkunotkun á Austurlandi í tengslum við raforkuvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna um 100 MW, sem er ekki fjarri flutningsgetu byggðalínunnar. Ljóst er að þessi nýja notkun mun þurfa að sæta verulegum skerðingum þar til flutningskerfið hefur verið styrkt. Er það miður því hér er um eitt mikilvægasta umhverfismál seinni tíma að ræða þar sem innlendir orkugjafar koma í stað innfluttrar olíu. Í því ljósi hefur Landsnet sett aukinn kraft í mat á umhverfisáhrifum á flutningsmannvirkjum um Sprengisand.
Áfram er unnið að undirbúningi nýrra lína milli Blönduvirkjunar og Fljótsdalsstöðvar.

Á meðan niðurstaða fæst ekki í stefnumótun í jarðstrengjamálum hér á landi er þess ekki að vænta að frekari uppbygging meginflutningskerfis raforku muni hefjast á næstunni. Því er mikilvægt að stjórnvöld marki sem allra fyrst stefnu sem Landsnet getur haft að leiðarljósi í þessu mikilvæga máli.

Landsnet er ekki andsnúið jarðstrengjum, heldur byggist afstaða fyrirtækisins á ákvæðum raforkulaganna um að hagkvæmasta leið skuli ávallt farin. Því kallar Landsnet, rétt eins og aðrir hagsmunaaðilar, eftir stefnumótun stjórnvalda í þessu mikilvæga máli svo horfa megi til framtíðar í uppbyggingu flutningskerfisins.

undirskrift1x