Evrópsk rannsókn á áreiðanleika flutningskerfa

Á vaktinni alla daga ársins

Stjórnstöð Landsnets er miðpunktur íslenska raforkuflutningskerfisins. Þar er starfsfólk á vakt allan sólarhringinn, alla daga ársins, við að stjórna flutningi raforkunnar og tryggja að hún skili sér snurðulaust og í fullum gæðum til viðskiptavina, hvað sem á dynur.

Head_evro

Evrópsk rannsókn á áreiðanleika flutningskerfa

Rannsóknarverkefninu GARPUR – Generally Accepted Reliability Principle with Uncertainty modelling and through probabilistic Risk assessment – sem Landsnet og Háskólinn í Reykjavík standa að ásamt 17 evrópskum háskólum, rannsóknarstofnunum og raforkuflutningsfyrirtækjum, var formlega hleypt af stokkunum á árinu.

GARPUR er umfangsmesta rannsóknarverkefni sem ráðist hefur verið í á þessu sviði í heiminum en meginmarkmið þess er að bylta gildandi aðferðafræði við áreiðanleikaútreikninga raforkuflutningskerfa og þróa ný og hagkvæmari viðmið, svo evrópsk flutningsfyrirtæki geti betur tekist á við þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í uppbyggingu og rekstri raforkukerfa í álfunni og unnið að frekari þróun þeirra.

Landsnet í lykilhlutverki

Uppruna verkefnisins má rekja til samstarfs Landsnets við norska flutningsfyrirtækið Statnett en saman hafa fyrirtækin unnið að verkefnum sem varða áreiðanleikaviðmið við hönnun og stýringu raforkukerfisins. Landsnet gegnir svo lykilhlutverki við að prófa aðferðafræði og áreiðanleikaviðmið í rannsókninni, enda fyrirtækið í fararbroddi í heiminum
í rauntímagreiningu á stöðugleika raforkukerfis með snjallnetslausnum.

Mikil áhersla hefur verið lögð á það hjá Landsneti á undanförnum árum að innleiða tækninýjungar, m.a. í upplýsingatækni, mælitækni og rafeindatækni, til að meta stöðu og ástand raforkuflutningskerfisins í rauntíma og auðvelda nákvæmari stjórnun þess. Ísland og íslenska raforkuflutningskerfið þótti kjörinn vettvangur til að prófa niðurstöður rannsókna GARPUR verkefnisins.

Áætlaður framkvæmdatími verkefnisins er fjögur ár en auk Landsnets og HR taka flutningsfyrirtæki raforku í Noregi, Belgíu, Frakklandi, Búlgaríu, Tékklandi og Danmörku þátt í því ásamt háskólum og rannsóknarstofnunum í Noregi, Belgíu, Finnlandi, Hollandi, Bretlandi, Tékklandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ísrael og Danmörku.

Heildarkostnaður verkefnisins er metinn 1,7 milljarðar króna og nemur rannsóknarstyrkur úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins 1,2 milljörðum króna.