Fjármálin

Samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af rekstri Landsnets árið 2013 alls 2.183 mkr. á móti 801 mkr. hagnaði árið 2012

Rekstur Landsnets gekk vel árið 2013 og í samræmi við áætlanir. Tekjur eru ákvarðaðar með tekjumörkum á grundvelli raforkulaga. Tekjumörk voru sett á árinu fyrir tímabilið 2011 – 2015, byggð á arðsemi sem ákvörðuð var á árinu 2012. Í lok árs felldi úrskurðarnefnd raforkumála úr gildi ákvörðun um arðsemi frá árinu 2012 og með því var tekjugrundvöllur félagsins að hluta til settur í óvissu. Samkvæmt raforkulögum er félaginu tryggður rekstrargrundvöllur er varðar reglubundinn rekstur og viðhald núverandi kerfis. Áhættan liggur því öllu fremur í að félaginu séu skapaðar þær tekjur og fjármagnsskipan sem því er nauðsynleg til að takast á við ný verkefni og styrkingu núverandi kerfis. Mjög mikilvægt er að ná ákvörðun um leyfða arðsemi fram sem fyrst til að tryggja stöðugleika í rekstri félagsins.

Á árinu 2013 voru nokkur stór fjárfestingarverkefni. Fjárfest var í heild fyrir um 6.408 mkr. Þau verkefni, sem unnið var að, eiga það flest sameiginlegt að vera til styrkingar núverandi kerfi. Fjárfestingar fyrri ára hafa verið mun minni og viðhald og styrkingar á kerfinu hafa haldist í hendur við stærri verkefni. Á síðasta ári var þeim áherslum breytt enda mikilvægt að viðhalda og styrkja kerfið með tilliti til lögbundinnar skyldu félagsins. Fjárfestingar ársins voru greiddar með handbæru fé og helst það óbreytt á milli ára. Afborganir af langtímalánum félagsins eru lágar og ekki í eðlilegum takti við skuldsetningu. Unnið er að framtíðarsýn um fjármögnun félagsins sem mun meðal annars taka mið af því að jafna afborgunarferilinn.

Rekstrarreikningur

Samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af rekstri Landsnets árið 2013 alls 2.183 mkr. á móti 801 mkr. hagnaði árið 2012. Rekstrarhagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 9.166 mkr. borið saman við 7.773 mkr. árið 2012. Betri afkoma á árinu 2013, í samanburði við fyrra ár, stafar aðallega af hærri tekjum af flutningi og lægri fjármagnskostnaði.

Rekstrartekjur námu 13.874 mkr., þar af voru tekjur af orkuflutningi 12.277 mkr. og hækkuðu um 1.360 mkr. á milli ára sem skýrist að mestu af hækkun á gjaldskrá til stórnotenda.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 4.709 mkr. og hækkuðu um 137 mkr. á milli ára eða um 3%. Hrein fjármagnsgjöld ársins 2013 voru 3.870 mkr. á móti 4.339 mkr. árið 2012 og lækkuðu því á milli ára um 10,8%. Verðbætur ársins námu 1.752 mkr. á móti 2.079 mkr. árið 2012 og lækkuðu um 327 mkr. Eignfærðir vextir voru 272 mkr. árið 2013 og hækkuðu um 192 mkr. Á móti var gengistap ársins 176 mkr. hærra en árið 2012.

Helstu niðurstöður ársreiknings

mkr.

2012 2013
Rekstrartekjur 12.344 13.874
Rekstrarhagnaður (EBIT) 5.306 6.568
Hagnaður 801 2.183
Handbært fé frá rekstri 5.808 7.733
Lausafé alls 10.561 10.152
Heildareignir 74.873 77.608
Vaxtaberandi skuldir 55.786 56.003
Eiginfjárhlutfall 17.7% 19.9%

Efnahagsreikningur

Eignir Landsnets námu alls 77.608 mkr. í árslok 2013 samanborið við 74.873 mkr. í lok fyrra árs. Eignir skiptust þannig að fastafjármunir námu 66.370 mkr. í árslok samanborið við 62.451 mkr. í árslok 2012. Þar af námu fastafjármunir í rekstri 63.198 mkr. í árslok samanborið við 58.625 mkr. í árslok 2012. Nýjar eignir voru teknar í rekstur á árinu og má þar nefna streng til Vestmannaeyja, launaflsvirki á Klafastöðum, tengivirki við Búðarháls og spennuhækkun á Stuðlum.

Langtímaskuldir og skuldbindingar námu 58.564 mkr. en skammtímaskuldir 3.598 mkr. í árslok 2013. Til samanburðar námu langtímaskuldir 57.644 mkr. og skammtímaskuldir 3.966 mkr. í árslok 2012. Engin ný lán voru tekin á árinu og afborganir aðeins greiddar af litlum hluta lánasafnsins en lán frá móðurfélaginu Landsvirkjun í íslenskum krónum er afborgunarlaust til 2020. Afborganir ársins 2014 eru áætlaðar 915 mkr. sem er nánast sama fjárhæð og greidd var í afborganir 2013.

Eigið fé í árslok 2013 nam 15.446 mkr. að meðtöldu hlutafé að fjárhæð 5.903 mkr. samkvæmt efnahagsreikningi. Eigið fé í lok árs 2012 nam 13.263 mkr. Hlutfall eigin fjár af heildareignum nam 19,9% í árslok 2013, samanborið við 17,7% í lok árs 2012.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri árið 2013 nam 7.733 mkr. samanborið við 5.808 mkr. árið 2012. Fjárfestingahreyfingar ársins námu 6.408 mkr. og fjármögnunarhreyfingar 825 mkr. Handbært fé í árslok 2013 nam 9.917 mkr. og lækkaði um 393 mkr. á árinu.

Langtímaskuldir Landsnets námu 94% af heildarskuldum félagsins í árslok. Af vaxtaberandi skuldum nema skuldir í íslenskum krónum (ISK) 89% og í svissneskum frönkum (CHF) 11%. Ekki er þörf á endurfjármögnun lána á árinu 2013 og verða afborganir lána og fjárfestingar greiddar með handbæru fé.

Tekjumörk og gjaldskrá

Landsnet starfar á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003. Samkvæmt 12 gr. laganna skal Orkustofnun setja félaginu tekjumörk og skal félagið ákveða gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við þau. Tekjumörkin taka mið af sögulegum rekstrarkostnaði, afskriftum fastafjármuna og leyfðri arðsemi sem Orkustofnun ákveður árlega. Arðsemisþátturinn vegur þungt í ákvörðun tekjumarka og því mjög mikilvægur.

Orkustofnun birti þann 1. október 2012 ákvörðun um arðsemi félagsins (WACC) fyrir tímabilið 2011 – 2015 og þar með forsendur ákvörðunar um tekjumörk en þau voru ekki sett fyrr en á miðju ári 2013. Á grundvelli arðsemiskröfunnar hefur félagið gert áætlanir um tekjumörk og áhrif þeirra á gjaldskrár fyrir umrætt tímabil. Í reglugerð um arðsemi er Orkustofnun gert að endurskoða árlega arðsemi flutningsfélagsins og í apríl 2013 endurskoðaði Orkustofnun ákvörðun um arðsemi ársins 2014. Sú endurskoðun fól í sér umtalsvert lægri arðsemi en þá sem gilti fyrir tímabilið 2011 – 2013 og var forsenda tekjumarka fyrir tímabilið 2011 – 2015.

Ákvörðun Orkustofnunar varðandi arðsemi félagsins fyrir tekjumarkatímabilið 2011 – 2015 var kærð til úrskurðarnefndar raforkumála og birti nefndin úrskurð sinn í árslok 2013. Með honum var ákvörðun Orkustofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka nýja ákvörðun. Óvissa í arðsemi félagsins skapar óvissu í rekstri. Því er mikilvægt að ákvörðun tekjumarka og arðsemi fyrir félagið sé í föstum farvegi og skapi þannig það jafnvægi sem mikilvægt er að ríki gagnvart gjaldtöku fyrir flutning raforku.

Flutningsgjaldskrá stórnotenda

Vegna misvægis, sem myndaðist milli tekjumarka í íslenskum krónum og gjaldskrár í Bandaríkjadölum við gengisfall krónunnar 2008, var gjaldskrá til stórnotenda lækkuð hinn 1. janúar 2010 um 7% og hinn 1. júní 2011 um 5% til þess að endurgreiða skuld sem myndast hafði. Samkvæmt breytingum á raforkulögum, sem tóku gildi 1. janúar 2011, var eignastofninn, sem liggur til grundvallar tekjumörkum fyrir stórnotendur, fluttur í Bandaríkjadali miðað við gengi 31. júli 2007. Þessi flutningur eignastofnsins í Bandaríkjadali hafði áhrif á tekjumörkin og forsendur lækkana frá 2010 og 2011 eru því ekki lengur fyrir hendi. Á grundvelli fyrrgreindra breytinga var gjaldskrá Landsnets fyrir stórnotendur hækkuð hinn 1. janúar 2013.

Mynd 1 sýnir þróun gjaldskrárinnar frá stofnun félagsins í samanburði við þróun CPI – vísitölunnar í Bandaríkjunum, enda fylgir verðlag eignastofnsins þeirri vísitölu. Með þessum samanburði má gera sér grein fyrir kaupmáttarþróun gjaldskrárinnar í Bandaríkjadölum yfir tímabilið. Hefur gjaldskráin sveiflast töluvert yfir þetta tímabil og er gengisfall krónunnar sveifluvakinn til ársbyrjunar 2011 þegar lögunum var breytt. Frá því að gjaldskrá til stórnotenda var breytt í Bandaríkjadali haustið 2007 hefur hún hækkað um 9,2% en verðlag skv. CPI um 12,1%.

graf_throun_flutn_gskr

Flutningsgjaldskrá dreifiveitna

Flutningsgjaldskrá fyrir dreifiveitur hafði verið óbreytt frá því í ágúst 2009, þrátt fyrir breytingar í ytra umhverfi fyrirtækisins. Á grundvelli laga var tekin ákvörðun um að hækka gjaldskrá fyrir dreifiveitur um 9% hinn 1. janúar 2013. Orkustofnun gerði athuga­semdir við þá ákvörðun og tók hún ekki gildi fyrr en 1. júlí 2013, þá óbreytt samkvæmt tillögum Landsnets.

Mynd 2 sýnir hvernig gjaldskrá til dreifiveitna hefur þróast frá stofnun fyrirtækisins. Frá árinu 2009 hefur reyndin verið sú að veruleg raunlækkun hefur átt sér stað á gjaldskrá gagnvart dreifiveitum eins og glögglega sést á myndinni. Þessi þróun ber með sér þá hagræðingu sem hefur orðið í gjaldtöku til dreifiveitna. Hlutfall flutningskostnaðar í heildarraforkukostnaði til heimila og fyrirtækja hefur lækkað umtalsvert frá stofnun Landsnets eða úr um 12% af raforkukostnaði í 9% í upphafi árs 2013. Þessi hagræðing hefur meðal annars orðið vegna stækkunar á kerfinu, arðbærra fjárfestinga og að mestu óbreytts raunrekstrarkostnaðar þrátt fyrir stækkun kerfisins.

graf_throun_dreifi

Gjaldskrá vegna kerfisstjórnar og flutningstapa

Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem Landsnet veitir til að viðhalda rekstraröryggi og jafnvægi í framboði og eftirspurn raforku á hverri stundu. Þar innifalið er reiðuafl¹ vegna tíðnistýringa og truflana, varaafl² og varalaunafl³. Auk þess þarf Landsnet að afla sér reglunaraflstryggingar til að reka markað fyrir jöfnunarorku. Til að sinna þessari lögboðnu skyldu sinni aflar Landsnet aðfanga, einkum frá vinnslufyrirtækjum, og aðgangs að varaafli hjá dreifiveitunum.

Samkvæmt raforkulögum ber Landsneti að útvega rafmagn í stað þess sem tapast í flutningskerfinu. Fyrirkomulag þessara innkaupa hefur frá fyrstu tíð verið með þeim hætti að framleiðendur raforku hafa gert Landsneti tilboð um orkukaup á grundvelli undangengins útboðs. Á grundvelli útboðs hefur Landsnet gert samning til eins árs um orkukaup í þessu skyni.

Hvoru tveggja þessara innkaupa eru háð eftirliti Orkustofnunar þannig að tryggt sé að Landsnet setji ekki hærri gjaldskrá en nemur innkaupsverði auk 1,5% álags á innkaupsverðið til að mæta innri kostnaði fyrirtækisins vegna umsýslu á þessum verkefnum. Þessi gjaldskrá er eins fyrir dreifiveitur og stórnotendur og birt í íslenskum krónum. Mynd 3 sýnir hvernig hún hefur þróast til ársloka 2013. Eins og fram kemur hefur vægi þessara þátta breyst nokkuð innbyrðis þar sem kostnaður vegna flutningstapa fór lengi vel lækkandi.

graf_flutningstap

1) Reiðuafl er varaafl sem er tengt raforkukerfinu og tiltækt án fyrirvara.

2) Á við aflgetu tiltækrar vinnslueiningar sem ekki er tengd við raforkukerfið en hægt er að ræsa eða tengja við það og nýta að fullu innan ákveðinna tímamarka.

3) Varalaunafl er launafl sem ræst er, annaðhvort sjálfvirkt eða handvirkt meðan á skammvinnu rekstarástandi stendur.