Fólkið okkar

Unnið hefur verið að markvissri uppbyggingu mannauðsmála hjá Landsneti frá árinu 2010

Unnið hefur verið að markvissri uppbyggingu mannauðsmála hjá Landsneti frá árinu 2010 með það að leiðarljósi að starfsfólk sé sem best í stakk búið til að takast á við framtíðaráskoranir fyrirtækisins. Lögð hefur verið áhersla á þjálfun og þekkingu, endurskipulagningu mannauðsferla og aðgengilegri og markvissari upplýsingar fyrir stjórnendur.

Vaxandi þörf fyrir nýtt starfsfólk

Í árslok 2013 voru starfsmenn Landsnets samtals 114, þar af voru 79% starfsmanna karlar en 21% konur. Karlar voru 67% stjórnenda og konur 33%. Starfsfólk Landsnets er vel menntað og býr yfir sérhæfðri þekkingu. Fjölmennustu hóparnir eru með rafiðnmenntun og háskólanám á sviði verk- og tæknifræði. Einnig má nefna viðskiptafræði, tölvunarfræði, hagfræði, félagsvísindi og lögfræði svo dæmi séu tekin. Á árinu voru 12 starfsmenn ráðnir til starfa hjá fyrirtækinu og gert er ráð fyrir aukinni starfsmannaveltu á næstu árum sökum aldurstengdra starfsloka. Um fimmtungur starfsfólks Landsnets er 60 ára og eldra.

Áfram er unnið að undirbúningi nýrrar starfsstöðvar Landsnets á Akureyri sem mun bæta þjónustuna á Norðurlandi, allt frá Hrútafirði að Kröflu. Áhersla er á gott samstarf við önnur orkufyrirtæki og verktaka um reksturinn. Jafnframt er ljóst að með minnkandi þekkingu þessara aðila á flutningskerfinu og aukinni sérhæfingu í rekstri þess að verður Landsnet að byggja upp þekkingu, hæfni og getu hjá sínu starfsfólki til að sinna starfseminni – án utanaðkomandi aðstoðar.

76 sumarstörf

Sumarið 2013 fengu 55 framhaldsskólanemar og 21 háskólanemi sumarvinnu. Áhersla er lögð á að háskólanemar fái tækifæri til að takast á við raunverkefni á sínu námssviði og vill Landsnet með þessu leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Batnandi heilsufar

Heilsa starfsfólks Landsnets fer batnandi því hlutfall veikindadaga lækkaði úr 1,89% árið 2012 í 1,73% 2013. Þetta er annað árið í röð sem hlutfall veikindadaga lækkar en markmið Landsnets er að vera undir 2%. Hefur fyrirtækið reynt að stuðla að góðri heilsu starfsfólks og bjóða upp á ýmiskonar læknisþjónustu.

graf_starfsaldur

graf_aldur

graf_menntun