Helstu framkvæmdir 2013

Árið 2013 var eitt mesta framkvæmdaár í sögu Landsnets. Námu fjárfestingar félagsins á sjöunda milljarð króna og hefur fjárfestingakostnaður ekki verið hærri frá árinu 2007

Árið 2013 var eitt mesta framkvæmdaár í sögu Landsnets. Námu fjárfestingar félagsins á sjöunda milljarð króna og hefur fjárfestingakostnaður ekki verið hærri frá árinu 2007.

Búðarháls

Búðarhálsvirkjun var tengd við flutningskerfi Landsnets undir árslok 2013 að lokinni byggingu tengivirkis á Búðarhálsi og sex km langrar 220 kV flutningslínu, Búðarhálslínu 1. Framkvæmdir hófust árið 2012 með byggingu tengivirkishúss, lagningu vegslóða fyrir Búðarhálslínu og vinnu við undirstöður fyrir möstur. Sumarið 2013 voru háspennumöstrin reist, leiðari línunnar strengdur og lokið við uppsetningu búnaðar í tengivirkinu. Mannvirkin voru formlega tekin í rekstur í ársbyrjun 2014 þegar iðnaðarráðherra tengdi Búðarhálsvirkjun við flutningskerfið.

Nýr spennir í Fljótsdal

Í upphafi árs var gerður samningur við fyrirtækið Tamini á Ítalíu um kaup á nýjum 220/132 kV, 100 MVA spenni sem settur verður upp í tengivirkinu í Fljótsdal. Framleiðsla spennisins hófst í febrúar 2013 og verður hann afhentur í apríl 2014. Settar voru upp undirstöður fyrir varaspenni í Fljótsdal. Áætlað er að tengja nýja spenninn í lok júlí 2014 og í kjölfarið fara núverandi spennar í Fljótsdal í viðgerð.

Nýr afhendingarstaður á Höfn

Nýjum afhendingarstað til RARIK var komið upp á Höfn í Hornafirði á 132 kV spennu til að bregðast við ósk um afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðjunnar þar.

Í tengivirkinu á Hólum var bætt við 132 kV rofareit, lína frá Hólum að Ægissíðu norðan Hafnar, sem RARIK hafði rekið á 11 kV spennu, var spennuhækkuð og frá enda línunnar að dísilstöð RARIK á Höfn var lagður 132 kV strengur. Bæjarstjóri Hornfirðinga hleypti spennu á nýju flutningsmannvirkin í upphafi árs 2014.

Varaaflstöð og tengivirki í Bolungarvík

Framkvæmdir við byggingu nýs sameiginlegs tengivirkis Landsnets og Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík og varaaflsstöð Landsnets hófust á árinu 2013 en núverandi virki er á snjóflóðahættusvæði. Útboðshönnun fyrir byggingarvirki, vélbúnað og rafbúnað fór fram í byrjun árs og á vormánuðum voru þessir verkþættir boðnir út. Framkvæmdir við grunn hófust um haustið og er áætlað að bygging verði að mestu tilbúin í byrjun sumars 2014. Samið var við sænska fyrirtækið Attacus, sem var lægstbjóðandi, um kaup á sex 1,8 MW díselrafstöðvum. Áætlað er að uppsetning rafstöðvanna hefjist í ágúst 2014 og að henni ljúki í september. Stefnt er að því nýja tengivirkið verði tekið í rekstur í október 2014.

Klafastaðir í Hvalfirði

Á árinu var lokið við uppsetningu á stýrðu launaflsvirki á Klafastöðum við Grundartanga. Virkið var tekið í prufurekstur í desember og tengt formlega við flutningskerfið í upphafi árs 2014. Með tilkomu þess eykst orkuflutningsgeta til Grundartangasvæðisins og getur Landsnet svarað aukinni eftirspurn um orkuafhendingu þar án þess að fjölga flutningslínum. Launaflsvirkið styrkir spennustýringu flutningskerfisins verulega og hefur jákvæð áhrif á raforkugæði og rekstur alls kerfisins.

 

Nýr sæstrengur til Vestmannaeyja

Sumarið 2012 hófst undirbúningur vegna lagningar nýs sæstrengs til Vestmannaeyja (VM3). Í kjölfar bilunar haustið 2012 á VM2, öðrum tveggja sæstrengja sem séð hafa Eyjamönnum fyrir raforku, var allt kapp lagt á að flýta verkefninu með það að markmiði að spennusetja nýjan sæstreng haustið 2013. Það markmið náðist. Gengið var frá samningi Landsnets og sænska fyrirtækisins ABB í upphafi árs 2013 um framleiðslu og lagningu sæstrengsins ásamt framleiðslu á jarðstrengjum til tengingar við hann. Lagning strengsins fór fram um sumarið og var hann formlega tekinn í rekstur 9. október af iðnaðarráðherra. Gerð var 30 mínútna heimildarmynd um verkefnið.

 

Nýtt tengivirki á Ísafirði

Framkvæmdir við nýtt tengivirki Landsnets á Ísafirði hófust á árinu en eldra tengivirki þar er gamalt, staðsett á snjóflóðahættusvæði og þarfnaðist endurnýjunar, auk þess sem framkvæmdir við ofanflóðavarnir kalla á nýja staðsetningu þess. Nýja tengivirkið er við hlið kyndistöðvar Orkubús Vestfjarða við botn Skutulsfjarðar. Tengivirkisbyggingin var fokheld í lok árs og er áformað að ljúka framkvæmdum vorið 2014.

Vegna ofanflóðavarna við Ísafjörð var óskað eftir því að Ísafjarðarlína 1 yrði færð og hófst vinna við það haustið 2012. Stöðva varð þá vinnu í desember 2012 vegna veðurs en framkvæmdir hófust aftur þegar frost fór úr jörðu vorið 2013 og lauk verkefninu í ágústmánuði.

Styrking Sigöldulínu 3

Á árinu var unnið að hönnun og gerð útboðsgagna fyrir aukna flutningsgetu Sigöldulínu 3, 220 kV línu milli Sigöldu og Búrfells. Skipt verður um leiðara á línunni og möstur styrkt. Flutningsgetan tvöfaldast við breytingarnar sem koma til framkvæmda í áföngum á næstu árum.

Jarðstrengur að Þeistareykjum

Lokið var við lagningu og frágang Þeistareykjalínu 2, 66 kV jarðstrengs, frá Kópaskerslínu 1 við Höfuðreiðarmúla að Þeistareykjum, við erfiðar aðstæður í snjó og óblíðu veðurfari á fyrri hluta ársins. Strengurinn var tekinn í rekstur í október og tryggir vinnurafmagn á framkvæmdasvæðinu á byggingartíma virkjunar á Þeistareykjum. Eftir gangsetningu virkjunarinnar mun hann tengja Laxárstöð við flutningskerfið.

Nýr áfangi tengivirkis að Stuðlum

Nýr viðbótaráfangi í tengivirki Landsnets á Stuðlum við Reyðarfjörð var tekinn í prufurekstur síðla árs og formlega í notkun af bæjarstjóra Fjarðabyggðar í byrjun árs 2014. Um er að ræða fyrsta áfanga í aðgerðaráætlun Landsnets til að auka flutningsgetu og áreiðanleika svæðisflutningskerfisins á Austurlandi í kjölfar rafvæðingar fiskvinnslufyrirtækja þar. Á Stuðlum var fyrir 66 kV útivirki en bætt var við 132 kV útitengivirki á sömu lóð ásamt tveimur 132/66 kV aflspennum með samanlagðri flutningsgetu um 65 MVA. Samhliða var Stuðlalína 1, sem er jarðstrengur frá tengivirki Landsnets á Hryggstekk í Skriðdal að tengivirkinu á Stuðlum, spennuhækkuð í 132 kV en hún hafði verið rekin á 66 kV spennu frá því hún var tekin í notkun.

Suðurnesjalína 2

Áfram var unnið að undirbúningi framkvæmda fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2 og er gerð útboðsgagna langt komin. Ný mastragerð hefur verið þróuð fyrir línukaflann frá Hrauntungum í Hraunhellur. Orkustofnun hefur fjallað um verkefnið og samþykkt það. Landsnet gerir ráð fyrir að hefja vinnu við slóðagerð og undirstöður fyrir Suðurnesjalínu 2 sumarið 2014 og að reisa línuna á árinu 2015.

Stækkun tengivirkis að Vatnshömrum

Til að bæta afhendingaröryggi á Vesturlandi var tengivirkið á Vatnshömrum stækkað á árinu. Komið var fyrir 132/66kV aflspenni og tveimur nýjum rofareitum. Nýi spennirinn kom úr tengivirkinu á Hryggstekk en eftir spennuhækkun á Stuðlum var ekki þörf fyrir hann þar. Samhliða voru gerðar breytingar á Vatnshamralínu 2 að Andakílsvirkjun. Endamastur sem var inni í virkinu var fjarlægt og síðasti spölur línunnar lagður í jörð. Framkvæmdum lýkur í byrjun árs 2014 þegar nýju einingarnar fara í rekstur.

Endurnýjun 220 kV straumspenna

Á árinu voru endurnýjaðir 220 kV straumspennar í nokkrum tengivirkjum Landsnets. Ástæður voru bæði takmarkað straumþol þeirra straumspenna sem fyrir voru og lélegt einangrunargildi við seltuskilyrði. Á Sultartanga var um töluvert umfangsmeiri framkvæmd að ræða og taka þurfti Hrauneyjafosslínu 1 úr rekstri í fimm vikur vegna þeirrar vinnu.

Rör fyrir jarðstrengi í Norðfjarðargöngum

Landsnet ætlar að nýta framkvæmdir Vegagerðarinnar við lagningu Norðfjarðarganga og koma fyrir ídráttarrörum fyrir jarðstrengi í göngunum. Fyrirtækin gerðu með sér samning um framkvæmdina árið 2013 og mun Landsnet greiða kostnað vegna lagningar ídráttarröranna, eftir framvindu verksins , en áætlað er að göngin verði opnuð fyrir umferð í ágúst 2017.

Selfosslína 3

Á árinu var unnið að undirbúningi nýrrar 28 km langrar 66 kV jarðstrengstengingar milli Selfoss og Þorlákshafnar. Rekstraráreiðanleiki vestari hluta 66 kV kerfisins á Suðurlandi er frekar takmarkaður en með þessari tengingu milli Selfoss og Þorlákshafnar eykst afhendingaröryggi þar til muna, sem og í Hveragerði. Fyrirhugað er að leggja strenginn árið 2015.

Styrking Tálknafjarðarlínu 1

Á haustmánuðum hófst vinna við styrkingu Tálknafjarðarlínu 1 en tíðar rekstrartruflanir hafa verið á línunni undanfarin ár. Fólst vinnan einkum í að auka einangrun leiðara frá burðarvirki og gera ráðstafanir til að draga úr samslætti leiðara. Frekari viðhaldsaðgerðir og breytingar eru fyrirhugaðar á Tálknafjarðarlínu 1 á næsta ári.