Umhverfisvænt nýsköpunarverkefni

Nýtt launaflsvirki Landsnets á Grundartanga er gott dæmi um uppbyggingarverkefni í flutningskerfinu þar sem horft hefur verið til umhverfissjónarmiða. Með tilkomu þess er hægt að flytja meiri orku inn á svæðið án þess að fjölga háspennulínum og við hönnun byggingarinnar var haft að leiðarljósi að draga sem mest úr áhrifum slíkra mannvirkja á umhverfið.

Kerfisáætlun Landsnets í umhverfismat

Vonast er til að betri heildarmynd fáist af umhverfisáhrifum framkvæmda við raforkuflutningskerfið í framtíðinni með umhverfismati áætlana sem er nú í vinnslu hjá Landsneti, samhliða vinnu við kerfisáætlun fyrir árin 2014 til 2023.

Kerfisáætlunin hefur verið gefin út árlega og er tilgangur hennar að veita yfirlit yfir framkvæmdir sem ráðgerðar eru á næstu árum til að styrkja og stækka flutningskerfi Landsnets. Einnig er gerð grein fyrir helstu eiginleikum flutningskerfisins, svo sem aflgetu, áreiðanleika, tapi, styrkleika á afhendingarstöðum, líkum á aflskorti og helstu takmörkunum kerfisins í áætluninni.

Um mitt ár 2013, fljótlega eftir útgáfu kerfisáætlunar Landsnets fyrir árin 2013-2017, úrskurðaði umhverfisráðherra að áætlun fyrri árs skyldi fylgja ferli um umhverfismat áætlana. Í kjölfarið var hafist handa hjá Landsneti við að skilgreina nýtt verklag og aðferðafræði.

Umhverfismatið tvískipt

Þar sem kerfisáætlunin er bæði stefnumótandi um framtíð flutningskerfisins, og jafnframt áætlun um einstök verkefni, var ákveðið að hafa umhverfismatið tvískipt. Annars vegar er fjallað um áhrif framtíðaruppbyggingar meginflutningskerfis raforku á umhverfið og hins vegar umhverfisáhrif helstu framkvæmda sem í áætluninni felast.

Megintilgangurinn er að tryggja að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða við ákvarðanir um áætlunina, dregið úr eða komið í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif og upplýst um hugsanlegar afleiðingar af framkvæmd kerfisáætlunarinnar á umhverfið. Grundvöllur matsvinnunnar er samanburður valkosta, s.s. um spennustig, leiðarval og kerfisútfærslur annars vegar og „núllkost“ hins vegar (sjá töflu).

Standa vonir til þess að með þessu nýja vinnulagi geti samráðsferli vegna nýframkvæmda hafist fyrr og snúist um meginvalkosti frekar en einstök verkefni – þannig að meiri sátt skapist um nauðsynlega framtíðaruppbyggingu raforkuflutningskerfisins.

t_kostir