Landsnetsakademían

Ánægja með þjálfun og fræðslu

Almenn ánægja er hjá starfsfólki með þá fjölbreyttu fræðslu sem er í boði hjá Landsneti til að auka starfstengda og persónulega hæfni.

Ötullega hefur verið unnið að uppbyggingu þjálfunar og fræðslu starfsfólks Landsnets á undanförnum árum með það að markmiði að stuðla að stöðugum umbótum og tryggja að starfsfólkið hafi til að bera þá hæfni og þekkingu sem þarf til að takast á við verkefni dagsins og framtíðaráskoranir fyrirtækisins.

Sérstaklega er lagt upp úr að kennslan sé stefnumiðuð og taki mið af þeim markmiðum sem sett hafa verið hjá fyrirtækinu um þjálfun og fræðslu. Stuðst er við þarfagreiningar til að meta þjálfunarþörf einstakra hópa og deilda og búnar til þjálfunaráætlanir fyrir bæði einstaklinga annars vegar og hópa og deildir hins vegar. Í kjölfarið er svo gefin út þjálfunaráætlun „Landsnetsakademíunnar“ og endurspeglar hún sérhæfða starfsemi fyrirtækisins, enda er það að hluta til markmið námskeiðanna að miðla áfram þeirri miklu og sérhæfðu þekkingu sem starfsfólk Landsnets býr yfir.

Námskeið heima og erlendis

Alls voru haldin 42 námskeið fyrir hópa eða deildir innan fyrirtækisins og snéru 16 þeirra að öryggismálum en hin 26 miðuðu að því að auka starfstengda- og persónulega hæfni starfsfólks. Þar má m.a. nefna undirbúningsnámskeið vegna aldursstarfsloka, kennslu í snjóflóðavörnum og fyrstu hjálp í óbyggðum, námskeið í verkefnastjórnun, námskeið í tjáningu og framkomu og námskeið í akstri og notkun vélsleða. Einnig var boðið upp á 17 kynningar eða fyrirlestra um hin ýmsu efni. Starfsfólk sótti einnig einstaklingsbundna þjálfun, bæði innanlands og út fyrir landsteinana, með þátttöku í námsstefnum og námskeiðum.

Allir nýir starfsmenn Landsnets fara í gegnum nýliðaþjálfun. Skilgreint er hvaða þjálfun nýtt starfsfólk þarf á að halda fyrstu mánuðina í starfi auk þess sem hver nýliði fær sinn „fóstra“ sem aðstoðar hann við að komast inn í starfið en markmiðið nýliðaþjálfunar er:

» Að starfsfólk fái kynningu á starfsemi Landsnets og geti samsamað sig stefnu og gildum fyrirtækisins.

» Að starfsfólk fái þjálfun og kennslu á tæki, tól og verkferla sem það  þarf að nota við störf sín þannig að það nái    tilætlaðri frammistöðu í starfi sem fyrst.

» Að starfsfólk fái sérhæfða þjálfun sem er skilgreind sem nauðsynleg til að það geti sinnt sínu starfi vel.

» Að starfsfólki líði vel í starfi og fái stuðning þegar það hefur störf.

Mat á námskeiðum og þjálfun sem boðið var upp á árinu bendir til þess að starfsfólk hafi almennt verið ánægt. Þannig töldu 94% þátttakenda að námskeiðið sem þeir sóttu hafa verið gott eða mjög gott og 84% þátttakenda töldu að námskeiðið sem þeir sóttu myndi nýtast vel eða mjög vel í starfi.

graf_namskeid_hopa

graf_hvernig_fannst

graf_hvernig-telur