Nýsköpun og rannsóknir

Metnaðarfull hönnun

Þrívíddarmynd af tengivirki Landsnets í Bolungarvík sem nú er í byggingu og mynd af röramöstrum, sem verða m.a. notuð í línur við Hafnarfjörð, sýna vel þann metnað sem lagður er í hönnun nýrra flutningsmannvirkja til að draga úr sjónrænum áhrifum þeirra.

Nýsköpun og rannsóknir

Landsnet leggur aukna áherslu á nýsköpun og þróun og ver umtalsverðu fjármagni til slíkra verkefna árlega. Megináherslur í nýsköpunaráætlun fyrirtækisins eru nútímaleg hönnun mannvirkja og aukin nýting hátækni á öllum sviðum. Dæmi um það er ný kynslóð háspennumastra og tengivirkja í kjölfar umfangsmikils hönnunarátaks Landsnets, rannsóknarverkefnið GARPUR, snjallnetslausnir til að auka flutningsgetu raforkukerfisins og verkefni tengd kostnaðar- og líftímagreiningu á jarðstrengjalögnum. Þá stendur yfir greining á áhrifum sæstrengs til Evrópu á raforkukerfið; s.s. kostnaði við strenginn, flutningi og orkuvinnslu á Íslandi ásamt áhrifum á orkumarkað og verðlag.

Ávinningur af hönnun mannvirkjanna hefur þegar skilað sér á Klafastöðum og Búðarhálsi og fleiri tengivirki eru í byggingu. Hönnun þeirra miðast við stöðluð, yfirbyggð virki til að draga sem mest úr stofn- og rekstrarkostnaði, auka rekstraröryggi og minnka jafnframt umhverfisáhrif mannvirkjanna.

Hönnun nýrra háspennumastra

Áfram er unnið að hönnun og þróun nýrra háspennumastra í samstarfi við Statnett í Noregi með aðstoð innlenda og erlenda sérfræðinga. Sérlega áhugaverð er hönnun og þróun röramastra sem nota á í þröngri línugötu. Þar er verið að þróa tæknilausnir sem hafa ekki verið notaðar fyrr í háspennumöstrum.

Rannsóknarverkefni um jarðstrengi

Notkun jarðstrengja hefur aukist í flutningskerfinu og hefur Landsnet hleypt af stokkunum rannsóknarverkefni í samstarfi við danska flutningsfyrirtækið Energinet.dk, StellaCable í Danmörku og Háskólann í Reykjavík. Huga á að leiðum til að lækka kostnað við jarðstrengjalagnir, bæta frágang og draga úr umhverfisáhrifum.

Verkefnið er rökrétt framhald verkefnis um líftímakostnað loftlína og jarðstrengja. Þær rannsóknir sýndu að líftímakostnaður er algerlega háður aðstæðum hverju sinni og mikilvægt að skoða hvert tilvik fyrir sig til að komast að málefnalegri niðurstöðu.