Öryggið ávallt í fyrirrúmi

Allir starfsmenn og þeir sem starfa á vegum Landsnets snúi heim heilir á húfi að vinnudegi loknum

Landsnet hefur ávallt lagt mikla áherslu á öryggismál, jafnt persónuöryggi sem rekstraröryggi flutningskerfisins. Mikið er enda í húfi fyrir starfsemina að vel takist til um þessa tvo meginflokka öryggismála, sem eru samþættir í þeim öryggisbrag sem mótaður hefur verið hjá Landsneti.

Vinnuslys

Áhersla Landsnets á öryggismál endurspeglast í „núll- slysastefnu“ félagsins þar sem meginmarkmiðið er að allir starfsmenn og þeir sem starfa á vegum Landsnets snúi heim heilir á húfi að vinnudegi loknum.

Þrátt fyrir yfirlýst markmið náðist ekki sá árangur árið 2013, því þá urðu þrjú fjarveruslys1). Tvö voru minniháttar en eitt nokkuð alvarlegt. Betur fór þó en leit út fyrir í fyrstu.

Slysatíðnin hjá Landsneti, þ.e. svokallaður H-stuðull2), var 2,07 miðað við 200 þúsund vinnustundir í árslok 2013. Fer stuðulinn lækkandi, fyrst og fremst vegna fleiri vinnustunda hjá Landsneti en eitt slys er einu slysi of mikið. Við því þarf að bregðast. Kappkostað er að skrá öll atvik, hversu léttvæg sem þau eru, svo bregðast megi við þeim með forvörnum. Skráning á öryggisatvikum hefur vaxið ár frá ári, sem er mjög jákvætt því meiri og betri upplýsingar auðvelda Landsneti frekar að bregðast og fyrirbyggja óhöpp.

Öryggisstaðlar

Landsnet stóðst vottunarúttekt á öryggisstaðlinum OHSAS 18001 á árinu og er nú starfað í samræmi við hann hjá félaginu. Bundnar eru vonir við að vottunin skerpi á allri öryggisvitund starfsfólks Landsnets og skili um leið betri árangri í öryggismálum. Þá er góð reynsla af notkun vottaðs rafmagnsöryggisstjórnunarkerfis (RÖSK) sem unnið hefur verið eftir um nokkurn tíma hjá Landsneti og er afar mikilvægt stjórnkerfi fyrir bæði persónu- og rekstraröryggi í öllum störfum við raforkuflutningskerfið.

Svona gerum við

Í upphafi árs 2013 gaf Landsnet út leiðbeiningarritið Svona gerum við um fyrirkomulag öryggismála í starfsstöðvum Landsnets. Markmið með ritinu er að setja hönnuðum og rekstraraðilum ákveðin viðmið, m.a. við hönnun nýrra mannvirkja, til að samræma fyrirkomulag öryggismála í starfsstöðvum Landsnets.

Neyðarstjórn Landsnets

Neyðarstjórn Landsnets fylgist grannt með öllum hættum sem áhrif geta haft á rekstur fyrirtækisins, s.s. hugsanlegum náttúrufyrirbærum eins og eldgosum, flóðum, sólstormum, faröldrum o. fl.

Starfsemi neyðarstjórnarinnar gekk samkvæmt áætlun á árinu. Fjölmörg málefni voru tekin til úrlausnar, möguleg vátilfelli rædd og leitað lausna. Tvær neyðarstjórnaræfingar fóru fram á árinu. Annars vegar borðæfing með þátttöku tveggja stórra raforkunotenda með áherslu á Tetra-samskipti, hins vegar stór raunæfing með þátttöku nánast alls raforkugeirans; stórra raforkunotenda, lögreglu, sýslumanna og margra annarra. Æfð voru viðbrögð við alvarlegum náttúru­hamförum með tilheyrandi skemmdum á raforkukerfi landsins. Almenn ánægja var með æfinguna og komu margar mikilvægar ábendingar fram um eflingu viðbragðsáætlana.

 

 

NSR

Neyðarsamstarf raforkukerfisins (NSR) hefur styrkst jafnt og þétt og voru haldnir tveir sameiginlegir fundir á árinu þar sem fjölmargir sérfræðingar fluttu erindi tengd raforkukerfinu. Markmið NSR er að efla neyðarsamstarfið til muna á komandi árum og standa fyrir sameiginlegum æfingum með þátttöku NSR félaga. Efla þarf snurðulaus samskipti þegar vá ber að höndum og hvetur NSR til aukinnar notkunar á Tetra í öllum samskiptum í orkugeiranum.

NordBER

NordBER eða Nordisk Berednings Forum er vettvangur raforkuflutningsfyrirtækja og orkustofnana á Norðurlöndunum um rekstraröryggismál. Markmið er að skiptast á upplýsingum og veita aðstoð yfir landamæri í alvarlegri vá. Þá eru haldnar sameiginlegar æfingar landanna og reynt að greina hættur sem norræni raforkugeirinn gæti staðið frammi fyrir. Landsnet og Orkustofnun taka þátt í starfsemi NordBER sem fer að mestu fram á þremur árlegum samráðsfundum, auk þess sem nokkrar vinnunefndir starfa allt árið og fjalla m.a. um áhættu- og viðkvæmnigreiningar, æfingar neyðarstjórna, öryggi fjarskipta og hættur af náttúrulegum toga. Töluverð gróska er í starfsemi NordBER og hefur Norðurlandaráð ályktað um mikilvægi hennar, sem og ríkisendurskoðendur þriggja norrænu samstarfslandanna. Búið er að skipuleggja starfsemi NordBER næstu tvö árin og er lögð aukin áhersla á sameiginlegar æfingar Norðurlandaþjóðanna – og eru nokkrar þegar í undirbúningi.

1) Slys sem valda fjarveru frá vinnu.

2)  Hyppiget, eða tíðni.