Starfsemin 2013

Mikið álag var á starfsfólki Landsnets vegna bilana auk þess sem árið einkenndist af umfangsmiklum framkvæmdaverkefnum

Árið 2013 hófst hjá Landsneti á sama hátt og árinu 2012 lauk – með miklum lagfæringum á flutningsvirkjum félagsins en á heildina litið voru truflanir í flutningskerfinu í meðallagi yfir árið. Mikið álag var á starfsfólki Landsnets vegna bilana auk þess sem árið einkenndist af umfangsmiklum framkvæmdaverkefnum. Þrátt fyrir mikið álag tókst jafnframt að ljúka hefðbundnu viðhaldi á tengivirkjum og háspennulínum. Viðhalds- og rekstrarverk gengu einnig vel og náðist að sinna áætluðum skoðunum og lagfæringum.

Truflanir

Fyrirvaralausar rekstrartruflanir í flutningskerfinu voru alls 52 talsins en bilanir sem tengdust rekstrartruflunum voru 56, sem þýðir að fleiri en ein bilun kom fram í nokkrum tilvikum. Flestar áttu sér stað í janúar, september og desember og voru oftast vegna veðurs. Skerðing vegna fyrirvaralausra truflana í flutningskerfinu nam samtals 595,8 MWh sem samsvarar 17,9 straumleysismínútum. Skerðing rafmagns vegna truflana í kerfi annarra veitna nam samtals 160 MWh.

Helstu rekstrartruflanir 2013

» 26. og 27. janúar gekk óveður yfir landið með miklum vindi og ísingu á Vestfjörðum og á Norðausturlandi með þeim afleiðingum að Bolungarvíkurlína 1 og Breiðadalslína 1 leystu út. Skemmdist sú síðarnefnda umtalsvert því einn fasi slitnaði og stæður og slár brotnuðu á nokkrum stöðum. Skerðing af þessu tilefni var 391 MWh.

» 23. febrúar leysti þungt álag, um 330 MW, út hjá stórnotanda á Suðvesturlandi með þeim afleiðingum að kerfisvarnir Landsnets skiptu raforkukerfinu upp í fjórar eyjar. Þegar unnið var að því að tengja saman suðvestur- og norðvesturkerfin leysti út vél í norðaustureyjunni með þeim afleiðingum að hún koðnaði niður sökum aflskorts. Straumlaust varð þá frá Blöndu austur að Hólum en það varði einungis í 12 sekúndur þar sem samfösun hafði verið reynd í Blöndu. Fór rofinn inn skömmu eftir að straumleysið varð þar sem skilyrði fyrir innsetningu rofans voru þá til staðar. Þetta varð til þess að spennusett var frá Blöndu austur að Hólum í einu lagi með þeim afleiðingum að spennan á Norður- og Austurlandi varð mjög há um tíma. Skerðing af þessu tilefni var metin á 62 MWh.

» 15. og 16. september gerði mjög slæmt veður með vindstreng úr norðri, úrkomu og ísingarveðri á Norðausturlandi. Á sama tíma var mjög hvasst með byljóttum vindhviðum sunnan Vatnajökuls. Auka- mannskapur var sendur til að vera í viðbragðstöðu ef línur færu að leysa út og tjón yrði á þeim. Einnig var gripið til viðeigandi ráðstafana í raforkukerfinu og flutningur stilltur af þannig að sem best mætti við una ef til útleysinga kæmi. Þegar óveðrið náði inn á land fór að bera á útleysingum. Fyrst leysti Laxárlína 1 út og svo fór Sigöldulína 4/Prestbakkalína 1 út tvisvar í röð á skömmum tíma. Vegna veðurofsa reyndist erfitt að halda línunum í rekstri og höfðu þær leyst út 7-8 sinnum þegar veðrinu slotaði. Mikil ísing var líka á Kröflulínu 1 og leysti hún út af þeim sökum. Þegar veðri slotaði og Laxárlína 1 var skoðuð kom í ljós að a.m.k. fimm stæður voru brotnar í henni. Skerðing af þessu tilefni var samtals 4 MWh.

» 25. september leysti stóriðjufyrirtæki á Suðvesturlandi út með þeim afleiðingum að önnur stóriðjufyrirtæki á svæðinu urðu að hluta til straumlaus. Samtals fóru út um 700 MW á einu bretti og hafði það víðtækar afleiðingar fyrir raforkukerfið. Kerfisvarnir Landsnets skiptu raforkukerfinu þá upp í tvær eyjar sem bjargaði norðaustureyjunni. Fór tíðnin hæst í 52,97 Hz í suðvestureyjunni og varð mikil spennuhækkun í henni. Í framhaldi af álagslækkun stóriðjunnar urðu útleysingar á ýmsum vélum í suðvestureyjunni, þar á meðal fóru tvær vélar út á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, sex í Soginu og þrjár á Reykjanesi. Breyting á tíðni og spennu hafði áhrif á einhverja notendur, t.d. má nefna að umferðarljós duttu út í Reykjavík og varaaflsvélar fóru í gang á nokkrum stöðum. Fimm tímum síðar var truflunin yfirstaðin og allt komið í eðlilegan rekstur. Skerðing af þessum sökum var samtals 46,50 MWh.

» 13. desember leysti Sigöldulína 4/Prestbakkalína 1 út í miklum vindi þar sem vindhviður fóru í um og yfir 45 m/s. Við útleysinguna skiptu kerfisvarnir Landsnetskerfinu upp í tvær eyjur og myndaðist undirtíðni í suðvestureyjunni sem olli því að stóriðja leysti út álag. Skerðing af þessu tilefni var um 11 MWh.

» 23. og 24. desember gerði mikið óveður á Vestfjörðum með hríðarbyl og mikilli úrkomu ásamt miklum, stöðugum vindi og hviðum um og yfir 40 m/s. Í kjölfarið leysti Geiradalslína 1 út sem varð til þess að straumlaust varð á öllum Vestfjörðum. Rafmagn var komið á stuttu síðar en línan leysti fljótlega aftur út. Samtals leysti Geiradalslína 1 út fjórum sinnum í viðbót fram að miðnætti á Þorláksmessu og var þá ákveðið að hefja keyrslu varaafls. Því lauk að morgni 24. desember þegar tókst að samtengja Vestfirði við flutningskerfið. Skerðing af þessu tilefni var samtals 6,65 MWh.

» 25. og 26. desember gekk mikið ísingarveður yfir Austurland og urðu töluverðar skemmdir á flutningslínum á svæðinu með tilheyrandi rekstrartruflunum sem stóðu meira eða minna fram í miðjan janúar 2014. Stuðlalína 2 leysti út á jóladag og einnig Kópaskerslína 1 í tvígang með stuttu millibili. Annan dag jóla leysti Vopnafjarðarlína 1 út vegna mikillar ísingar. Við skoðun á Stuðlalínu 2 kom í ljós að 10 stæður voru brotnar en á Vopnafjarðarlínu 1 var einn fasi slitinn og staur brotinn. Aðstæður til viðgerða voru mjög slæmar; mikill snjór, stöðug ísing og mikil þoka. Unnu línumenn Landsnets þrekvirki ásamt verktökum og aðstoðarfólki við að koma línunum í rekstur við mjög erfiðar aðstæður. Skerðing af þessu tilefni var u.þ.b. 1,9 MWh.

» 30. desember gekk óveður yfir Vestfirði með miklum vindi og ísingu og leysti þá Breiðadalslína 1 út. Skerðing vegna þessa var metin 1,78 MWh.

fjoldi_fyrirvl_bilanastraumleysisminutur

daegursveifla_a_afli

Afltoppur ársins

Mesti afltoppur ársins mældist 6. mars 2013 og var hann 2236 MW, sem er 3,94 % hærra gildi en 2012. Heildarúttekt úr flutningskerfinu nam 17113 GWh árið 2013, sem er 3,03 % aukning milli ára. Flutningstöp í kerfinu námu 2,14 % af innmötun eða samtals 374 GWh og jukust um 9,25%.

Aukin flutningstöp og rekstraráhætta

Flutningur eftir byggðalínunni var í eða yfir mörkum stóran hluta ársins. Ástæðan var annars vegar aukið álag á Austurlandi og hins vegar umtalsverður flutningur á orku milli landshluta vegna lónstöðu vatnsaflsvirkjananna. Í 23 tilvikum þurfti að skipta flutningskerfinu upp í eyjarekstur¹ til að forðast frekari áföll í rekstri þess. Olli þetta auknum flutningstöpum í kerfinu og meiri rekstraráhættu en verið hefur á undanförnum árum hjá Landsneti. Voru m.a. gerðar prófanir í kerfisrekstrinum þar sem mismunandi eyjarekstrartilvik voru skoðuð og prófuð með það að markmiði að draga úr áhættu við mikinn flutning um byggðalínuna

Markaðsmál

Í útboði Landsnets á haustmánuðum á flutningstöpum og reglunaraflstryggingu² komu fram verulegar hækkanir á raforkuverði og hækkuðu viðkomandi gjaldskrárliðir í kjölfarið. Aukinn skerðanlegur flutningur³ hefur einnig reynt á verklag Landsnets við raforkuskerðingar og samskipti fyrirtækisins við dreifiveitur og stórnotendur.

Lögum samkvæmt ber Landsneti að tryggja nægilegt reiðuaf⁴ á hverjum tíma, stýra tíðni og spennu og tryggja lágmarksframboð reglunarafls⁵ á reglunaraflsmarkaði. Með samningum við framleiðendur var tryggt að 100 MW reiðuafl væri fyrir hendi árið 2013. Haldið var áfram tilraunum með símatilboð á reglunaraflsmarkaði, með það að markmiði að auka samkeppni. Einnig var þróað fyrirkomulag sem auðveldar sölufyrirtækjum að taka þátt í að bjóða afl á reglunaraflsmarkaði. Boðnar voru út reglunaraflstryggingar, 40 MW til uppreglunar og 40 MW til niðurreglunar. Þrír aðilar tóku þátt í útboðinu og í kjölfarið komu inn á reglunaraflsmarkað nokkrar nýjar vinnslueiningar. Hefur þátttaka þeirra gengið vel á markaðnum.

manadarmedaltol

Á undanförnum árum hefur Landsnet unnið að opnun íslensks raforkumarkaðar, ISBAS. Opnun uppboðsmarkaðar fyrir raforku er stórt skref. Því er mikilvægt að markaðsaðilar sjái sér hag í að vera virkir þátttakendur í slíkum markaði frá upphafi. Þegar ákvarðanir og skuldbindingar markaðsaðila liggja fyrir getur Landsnet opnað ISBAS markaðinn innan hálfs árs á grunni þeirrar undirbúningsvinnu sem þegar hefur farið fram.

Netmáli⁶

Unnið var að endurskoðun skilmála um sölumælingar og uppgjör, sem og skilmála um tengingu við flutningskerfi Landsnets. Þá var lokið við skilmála um skerðanlegan flutning. Skilmálinn var samþykktur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og tók gildi 1. október 2013.

Varnir og kerfisvarnir

Stöðugt er unnið að því að halda öllum varnarkerfum flutningskerfisins innan ásættanlegra aldursmarka og tryggja að að þau virki sem best. Á árinu náðist að endurnýja stóran hluta varnarbúnaðar á Rangárvöllum og við Eyvindará auk þess sem mikið af nýjum stjórn- og varnarbúnaði var tekið í notkun í tengslum við nýframkvæmdir. Þar má m.a. nefna launaflsvirkið á Klafastöðum og endurnýjun varnarbúnaðar Norðurálslínu 1 og 2, stækkun tengivirkis á Stuðlum, nýtt tengivirki á Búðarhálsi og nýjan línuútgang á Hólum í Hornafirði. Ráðist var í endurnýjun straummælaspenna á Brennimel, Geithálsi, Sultartanga og Sigöldu vegna aukins álags í meginflutningskerfinu undanfarin ár.

Varnarbúnaður er afar mikilvægur í rekstri flutningskerfisins. Á síðari árum hafa auk hefðbundinna varna verið settar upp og þróaðar svokallaðar kerfisvarnir sem skipta kerfinu upp í eyjur þegar rekstrarskilyrði verða erfið. Þær eru æ mikilvægari þáttur í stjórn flutningskerfisins eftir því sem álag eykst og flutningur milli landshluta er nálægt mörkum stóran hluta ársins. Unnið var að uppsetningu kerfisvarna í Sigöldu og uppsetningu búnaðar á byggðalínunni, allt frá Brennimel og norður og austur um land að tengivirkinu í Fljótsdal, til að staðsetja bilanir af meiri nákvæmni.

jofnunarorkuverd

1) Geta verið tvær eða fleiri minni rekstrareiningar.

2) Tryggir lágmarks framboð á reglunaraflsmarkaði, sjá skýringu⁵.

3) Raforkunotkun sem heimilt er að láta skerða vegna ákveðinna tilvika, s.s. truflana, flutningstakmarkana o.fl.

4) Varafl sem er tengt raforkukerfinu og er tiltækt án fyrirvara.

5) Það afl sem Landsnet útvegar til að jafna frávik milli áætlaðrar aflnotkunar og raunverulegrar aflnotkunar í raforkukerfinu í heild.

6) Samsafn skilmála Landsnets sem varða flutning rafmagns, hönnun, rekstur o.fl. Grid Code á ensku.

Þróun flutningskerfisins

Undirbúningi nokkurra nýframkvæmda Landsnets lauk í ársbyrjun 2013 og var þar með lagður grunnur að einu mesta framkvæmdaári í sögu félagsins. Verkefnin spanna vítt svið, tengjast öllum landshlutum og varða bæði viðhald, styrkingu og vöxt raforkuflutningskerfisins. Kapp var lagt á að hefja undirbúning þeirra fyrr en tíðkast hefur, einkum vinnu við kerfisgreiningu, sértækar rannsóknir á veðurfari, kostagreiningu, leiðaval fyrir lagnaleiðir og skipulagsmál og fylgja réttum verkferlum með það að markmiði að stytta undirbúningstíma viðkomandi verkefna eftir að endanleg ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdir.

Grunnrannsóknir og gagnasöfnun

Landsnet og forverar þess hafa í áranna rás staðið fyrir grunnrannsóknum á umhverfisþáttum sem hafa áhrif á uppbyggingu og rekstur raforkuflutningskerfisins. Þessi áralanga vinna hefur fært Landsneti einstakt gagnasafn til ákvarðanatöku um framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins. Slíkar grunnrannsóknir verða stundaðar áfram, enda mikilvægt að samfella haldist í slíkri vinnu.

Meðal þess sem unnið var að á árinu var þróun spálíkana um hleðslu ísingar á raflínur. Landsnet er m.a. með sérstakan búnað á mikilvægum flutningslínum, sem hraðar bilanaleit, og togmæla sem mæla ísingarmagnið. Þunginn getur orðið sambærilegur því að stórir jeppar hangi á leiðurunum! Væntingar eru til þess að ísingarspálíkanið nýtist við ákvarðanir um álagsforsendur sem og vöktun flutningskerfisins í daglegum rekstri í framtíðinni.

Kerfisgreining og -hönnun

Að venju var á árinu unnið að mörgum og fjölbreyttum verkefnum er lúta að kerfisgreiningu og kerfishönnun, auk athugana sem tengjast fyrirspurnum viðskiptavina og hagsmunaaðila. Þar má m.a. nefna greiningar vegna styrkingar landshlutakerfanna, greiningu á landtöku og nauðsynlegri styrkingu flutningskerfisins vegna hugsanlegs sæstrengs til Evrópu, leit að lausnum á flutningstakmörkunum í meginflutningskerfinu og greiningu á tengimöguleikum virkjunarkosta.

Áhættumat

Unnið var að áhættumati fyrir starfsemi Landsnets á árinu og nær það yfir félagið í heild. Undir áhættumatið fellur m.a. mat á rekstraráhættu, verkefnaáhættu, fjárhagslegri áhættu og mótaðilaáhættu. Þetta er í fyrsta sinn sem svo heildstætt áhættumat er unnið fyrir félagið og kom stór hluti starfsfólks Landsnets að vinnslu þess. Mikil áhersla er lögð á mál tengd öryggi starfsfólks hjá félaginu og var það einnig gert í áhættumatinu.

Rekstraráhætta er skilgreind sem hætta á neikvæðum áhrifum á afkomu fyrirtækisins. Hún lýtur m.a. að atriðum er varða framleiðslu inn á kerfið, flutningskerfinu sem slíku, upplýsinga- og eftirlitskerfum, stjórnun, lagaumhverfi, samningum og fleiru.

Verkefnaáhætta er skilgreind sem hætta á að niðurstaða og úrlausn sjálfstæðs verkefnis á vegum fyrirtækisins verði því á einhvern hátt ekki ásættanleg.

Mótaðilaáhætta

er áhætta á fjárhagslegu tapi ef viðskiptaaðili eða mótaðili í fjármálagerningi getur ekki staðið við umsamdar skuldbindingar.

Fjárhagsleg áhætta lýtur fyrst og fremst að fjárhagslegum málum í starfsemi fyrirtækisins, þ.e. áhættu á fjárhagslegu tapi á liðum innan og utan efnahagsreiknings, m.a. vegna breytinga á markaðsvirði þessara liða. Þar á meðal eru breytingar á vöxtum, gengi gjaldmiðla og verðbólgu. Skilgreind fjárhagsleg áhætta félagsins er lausafjár-, vaxta-, gengis- og verðtryggingaráhætta.

Upprunaábyrgðir raforku

Landsnet byrjaði að gefa út upprunaábyrgðir raforku (græn skírteini) í apríl 2012 en með slíkri ábyrgð er staðfest að orkan sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. vatnsorku eða jarðvarma.

Víða í Evrópu er markaður fyrir upprunaábyrgðir raforku og fór útgáfa grænu skírteinanna langt fram úr áætlunum á árinu. Heildarútgáfa upprunaábyrgða Landsnets var ríflega 13 milljónir skírteina en árið áður var heildarútgáfan tæplega 5,4 milljónir skírteina, eða 59% aukning á milli ára.

Með útgáfu upprunaábyrgðanna styður Landsnet við markaðsumhverfi raforkusala svo um munar. Fyrir hverja MWh af raforku, sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjafa, er hægt að selja upprunaábyrgð óháða sölu sjálfrar raforkunnar. Þannig hefur skapast ný söluvara sem íslenskir raforkuframleiðendur hafa brugðist vel við og selt í umtalsverðu magni á Evrópumarkaði. Í ljósi mikillar sölu á grænu skírteinunum ákvað Landsnet að lækka gjaldskrána vegna útgáfu þeirra úr 7 krónum fyrir hvert útgefið skírteini í 4,30 krónur. Gjaldskrárlækkunin tók gildi þann 1. október 2013.

Til að kynna grænu skírteinin og það regluverk sem gildir um þau hér hefur Landsnet átt samstarf við aðra evrópska útgefendur. Starfsfólk Landsnets hefur tekið virkan þátt í starfi Evrópusamtaka útgefenda upprunaábyrgða (AIB) og sinnt lykilhlutverki við bæði innleiðingu og stefnumótun á sviði tæknimála hjá samtökunum.

Innkaup og birgðahald

Sökum umfangsmikilla framkvæmda og viðhalds í flutningskerfinu var árið annasamt í innkaupum og birgðahaldi. Efnt var til 16 útboða auk fjölda verðfyrirspurna á árinu. Þetta mikla framkvæmdaár endurspeglast líka í fjölda innkaupapantana. Þeim fjölgaði um 15%, úr 1.594 árið 2012 í 1.822 árið 2013.

Mikil umsvif voru einnig í birgðastöð Landsnets á Geithálsi þar sem megnið af þeim búnaði, sem notaður er við framkvæmdir og viðhald, hefur viðkomu. Sem dæmi um umsvifin má nefna að í ársbyrjun var ráðist í að fylla á lager af tréstaurum í kjölfar mikilla tjóna í óveðrum. Voru um 500 tréstaurar fluttir til landsins á vormánuðum.

Upplýsingatæknin æ mikilvægari

Upplýsingatækni og fjarskipti gegna æ mikilvægara hlutverki við að tryggja rekstur og öryggi flutningskerfisins og leggur Landsnet mikla áherslu á að nýta tæknina eins og kostur er.

Á árinu var lögð lokahönd á uppfærslu orkustjórnkerfis Landsnets. Einnig lauk aðskilnaði félagsins frá Landsvirkjun endanlega með innleiðingu eigin fjárhagskerfis, símstöðvar og launakerfis Landsnets. Jafnframt var gengið frá vali á nýju skjalakerfi fyrir félagið og eru bundnar miklar vonir við að nýtt kerfi auki skilvirkni og gagnsæi og opni möguleika á enn frekari samvinnu á milli deilda og hópa. Nýtt innranet var tekið í notkun í árslok en vinna við það hófst árið 2012.

Tvær úttektir voru framkvæmdar á árinu. Sú fyrri var öryggisúttekt þar sem beitt var ýmsum aðferðum til að meta ástand upplýsingaöryggis fyrirtækisins. Sú síðari  var úttekt og greining á virkni þeirra hugbúnaðarkerfa sem eru í notkun hjá Landsneti, flæði gagna þeirra á milli og skörun á virkni. Niðurstöður greininganna voru að mestu jákvæðar en bætt verður úr því sem betur má fara á árinu 2014.