Lagning nýs sæstrengs til Vestmannaeyja á mettíma sumarið 2013 er dæmi um vel heppnaða framkvæmd til að styrkja landshlutakerfið á Suðurlandi. Styrkingar landshlutakerfanna miða að því að auka afhendingaröryggi innan svæðanna en þær skila sér ekki alltaf strax að fullu vegna annmarka í meginflutningskerfinu. Verður svo enn um sinn.
Afhendingaröryggi raforku hefur verið minna í svæðisbundnum flutningskerfum Landsnets en meginflutningskerfinu. Markvisst hefur verið unnið að úrbótum og frá 2010-2013 er búið að verja ríflega 5 milljörðum króna í styrkingu landshlutakerfanna. Um 6 milljarðar eru eyrnamerktir átakinu 2014-2016.
Á Vesturlandi er verið að undirbúa hringtengingu milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar með lagningu jarðstrengs og nýjum aðveitustöðvum. Einnig verður ráðist í byggingu nýrrar aðveitustöðvar á Akranesi.
Á Suðurlandi er hafin undirbúningur lagningar strengs milli Selfoss og Þorlákshafnar sem bætir afhendingaröryggi á Selfossi, í Hveragerði og í Þorlákshöfn. Undirbúningur að byggingu nýs tengivirkis í Eyjum og hækkun rekstrarspennu nýja sæstrengsins úr 33 í 66 kV er hafinn. Jafnframt er í bígerð að ráðast í frekari styrkingar á Suðurlandskerfinu svo það anni fyrirsjáanlegri álagsaukningu. Má þar m.a. nefna jarðstreng milli Hellu og Hvolsvallar, í stað Hellulínu 2, og endurnýjun tengivirkis á Hvolsvelli.
Fyrir vestan er spennir Landsnets í Mjólká fulllestaður og nauðsynlegt að bæta við nýjum spenni fljótlega til að auka flutningsgetu inn á svæðið og auka afhendingaröryggi. Einnig er verið að skoða hringtengingu á sunnanverðum Vestfjörðum og þá meðal annars horft til væntanlegra Dýrafjarðarganga.
Lestun aflspenna í öðrum tengipunktum landshlutakerfanna hefur aukist samhliða vaxandi álagi og er spennir í Varmahlíð t.d. orðinn þunglestaður í ákveðnum rekstrartilvikum.
Til framtíðar stefnir Landsnet að enn frekari styrkingu svæðisbundnu kerfanna með aukinni áherslu á tvöföldun tenginga og milli svæða til að bæta afhendingaröryggi. Þar er tekið mið af fyrirhuguðum iðnaðarsvæðum, samkvæmt skipulagsáætlunum sveitarfélaga, og einnig horft til rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða.
Landshlutakerfin eru oftast rekin á 66 kV spennu. Við endurnýjun þeirra eru almennt lagðir jarðstrengir, enda er kostnaður við þá metinn nokkurn veginn til jafns við kostnað við loftlínur á þessu spennustigi. Tæplega 90 km hafa verið lagðir í jörðu á 132 kV, 66 kV og 33 kV spennu á síðustu 10 árum. Þar af eru tæplega 40 km í landshlutakerfunum.