Umhverfismál

Styrking flutningskerfisins eykur nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda þjóðarinnar því bætt flutningsgeta gerir samfélaginu m.a. kleift að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir raforku

Raforkuflutningskerfi Landsnets er einn af burðarásum sjálfbærrar og umhverfisvænnar orkunýtingar á landinu, enda er raforka samfélaginu nauðsynleg. Án hennar getur nútíma heimilishald, viðskipti eða önnur atvinnustarfsemi ekki þrifist.

Styrking flutningskerfisins eykur nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda þjóðarinnar því bætt flutningsgeta gerir samfélaginu m.a. kleift að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir raforku, eins og nýleg dæmi tengd fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi sýna. Kerfisstyrking stuðlar því beinlínis að því að ná fram markmiðum stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Rekstur flutningskerfisins hefur einnig áhrif á umhverfið. Þó losun mengandi efna frá daglegri starfsemi Landsnets sé hlutfallslega lítil vegna eðlis hennar leiða nýframkvæmdir fyrirtækisins til ýmissa umhverfisáhrifa. Þar má nefna framleiðslu íhluta fyrir flutningskerfið og ýmiskonar jarðrask sem hefur áhrif á náttúruna, s.s. vegna slóðagerðar og reisingar háspennumastra. Önnur umhverfisáhrif eru huglægari, t.d. sjónræn áhrif mannvirkja. Skal áréttað að sjónræn áhrif loftlína eru að mestu leyti afturkræf.

Vottað umhverfisstjórnunarkerfi

Stefna Landsnets er að halda óæskilegum áhrifum starfseminnar á umhverfið í lágmarki og eru umhverfissjónarmið samofin allri starfsemi félagsins með skipulagðri stjórnun umhverfismála. Á árinu 2013 stóðst Landsnet vottunarúttekt á umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt kröfustaðlinum ISO 14001. Innleiðing umhverfisstjórnunarkerfis hefur gert það að verkum að verkferlar fyrir stjórn mikilvægra umhverfisþátta eru nú undir enn skipulegri stýringu en áður.

Hildur B. Hrólfsdóttir, gæða- og umhverfisstjóri Landsnets, Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, Ari Arnalds, gæðastjóri hjá Vottun hf., og Lúðvík B. Ögmundsson, öryggisstjóri Landsnets, við afhendingu vottunar Landsnets í umhverfis- og vinnuöryggisstjórnun.

Kröfur til umhverfismála í nýframkvæmdum

Strangar kröfur varðandi umhverfismál eru hluti af útboðsgögnum allra fjárfestingarverkefna og hafa verkefnastjórar félagsins góða þekkingu á þeim. Starfsmenn verktaka eiga einnig að fá kynningu á kröfum varðandi umhverfis- og öryggismál áður en framkvæmdir hefjast. Á verktíma hafa eftirlitsmenn og verkefnisstjóri eftirlit með þessum þætti framkvæmdar. Við verklok línuframkvæmda framkvæmir Landsnet, með helstu hagsmunaaðilum, sérstaka úttekt á frágangi og viðskilnaði verksins m.t.t. umhverfismála. Reynsla Landsnets af þessu verklagi er góð og sýnir að flestir verktakar eru jákvæðir fyrir slíkri samvinnu og fagna umbótatillögum. Umbætur í umhverfismálum eru langhlaup og kalla á breytt viðhorf og hæfni allra sem að slíkum verkum koma. Þrátt fyrir góðan ásetning geta frávik komið upp í starfseminni. Landsnet ber þá ábyrgð á því að bæta skaðann og laga umhverfisrask eins og hægt er. Á árinu 2013 voru gerðar þrjár umhverfisúttektir við lok fjárfestingarverkefna.

Kolefnisspor Landsnets

Myndin sýnir skiptingu losunar gróðurhúsalofttegunda 
(kg CO₂ ígildi) eftir uppsprettum.

Myndin sýnir skiptingu losunar gróðurhúsalofttegunda 
(kg CO₂ ígildi) eftir uppsprettum.

Starfsemi Landsnets markar ákveðið kolefnisspor, þ.e. losar lofttegundir sem valda gróðurhúsaáhrifum og hlýnun jarðar. Stærsti hluti losunar gróðurhúsalofttegunda vegna reksturs flutningskerfisins stafar af innkaupum á varaafli, raforkutöpum í kerfinu og leka á einangrunargasinu brennisteinshexaflúoríði (SF₆). Framlag þessara þriggja þátta nemur 98,5% af kolefnisspori starfseminnar og þar er fyrst og fremst verk að vinna. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna innkaupa á varaafli er aðallega vegna raforkuframleiðslu í dísilknúnum rafstöðvum (varaaflsstöðum), sem gangsettar eru þegar afhending raforku frá flutningskerfinu bregst. Um 84% af öllu varaafli í flutningskerfinu á árinu var framleitt á Vestfjörðum.

Kolefnisspor vegna raforkutapa er tilkomið vegna framleiðslu á raforku sem tapast í flutningskerfinu. Þar vegur aukinn hluti jarðvarma í raforkukerfinu langþyngst. Brennisteinshexaflúoríð (SF₆) er mjög stöðugt mólikúl, notað sem neistavari eða einangrunargas í rafbúnaði en er jafnframt mjög öflug gróðurhúsalofttegund. Árið 2013 var leki SF₆ frá rafbúnaði um 0,51% af heildarmagni gass í kerfinu (óstaðfestar bráðabirgðaniðurstöður). Þessi leki samsvarar þeim kröfum sem gerðar eru til þéttleika á nýjum búnaði (0,5%). Á árinu var heildarflutningur raforku í kerfinu 17.487 GWst. Kolefnisspor Landsnets árið 2013 (án tillits til kolefnisbindingar vegna landgræðslu) var 19.874 tonn CO₂ ígildi eða 1136 kg CO₂ ígildi/flutta GWst. Kolefnisspor Landsnets er af sömu stærðargráðu og kolefnisspor tæplega 8.000 dísilfólksbíla, sem eyða að meðaltali 8 l/100 km og ekið er 12.000 km/ári.

Við útreikning á losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsnets eru notuð raungögn um leka á SF₆ og innkaup á jarðefnaeldsneyti fyrir bifreiðar og tæki. Tölur um kolefnisspor vegna varaafls byggja á gögnum um fjölda framleiddra MWh og eldsneytisnotkun dísiltúrbína. Niðurstöðurnar eru umreiknaðar í koldíoxíðígildi með því að nota stuðla frá Umhverfisstofnun, þá sömu og notaðir eru við vinnslu bókhalds vegna loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Fjöldi flugferða starfsfólks innanlands er notaður til að áætla losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. út frá upplýsingum frá flugfélögum og Orkuspárnefnd. Millilandaflug og kolefnisspor innviða flutningskerfisins eru ekki með í þessum niðurstöðum (t.d. stál, ál og steypa).

Landgræðsla

Unnið var á árinu að landgræðslu á um 162 hekturum lands í samstarfi Landsnets og Landgræðslunnar í Víðidal á Fjöllum. Bærinn stendur í um 460 m hæð yfir sjávarmáli og var jörðin talin algróin fram yfir 1500 en er nú að mestu blásin og gróðurlítil. Skilyrði til landgræðslu voru fremur hagstæð á árinu og eru gróðursnauðir melar nú byrjaðir að taka við sér. Þá vann sumarvinnuflokkur Landsnets að dreifingu á áburði og fræjum sunnan Langjökuls sumarið 2013.