Úrbætur í meginflutningskerfinu

Mögulegt útlit mastra

Þrívíddarmynd af nýjum háspennumöstrum sem Landsnet hefur látið hanna til að falla betur að íslensku umhverfi. Hér eru möstrin sýnd á Sprengisandsleið, Hágöngur í fjarska. Áréttað skal að staðsetning mastranna á myndinni er óháð fyrirhugaðri línuleið.

„Flöskuhálsar“ í meginflutningskerfinu gera Landsneti æ örðugra um vik að flytja orku milli landshluta og tryggja nægjanlegt rekstraröryggi. Fyrirséð er að ástandið mun einungis versna vegna aukningar í flutningi og í nýlegri skýrslu, sem unnin var fyrir Landsnet, er sýnt fram á að ef ekki verður farið í frekari uppbyggingu á næstu árum muni það leiða af sér ýmsa erfiðleika og kosta þjóðfélagið milljarða króna.

Til að snúa þessari óheillaþróun við er að mati Landsnets brýnast að ráðast í tvö verkefni. Þau eru bygging Suðurnesjal­ínu 2, til að tryggja afhendingaröryggi raforku á Reykjanesi, og efling tengingar milli Norður- og Suðurlands. Suðurnesjalína hefur verið nær áratug í undirbúningi og nú hillir undir að framkvæmdir geti hafist við þetta brýna hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi.

Vinnu við norður-suðurtengingu flýtt

Byggðalínuhringurinn er fulllestaður og annar ekki eftirspurn eftir raforku á Norður- og Austurlandi. Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir því að styrkja hann í áföngum en breyta þarf forgangsröðun framkvæmda vegna mikillar aukningar í orkuflutningi, m.a. vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja eystra og stóraukinnar orkuvinnslu á Norðurlandi samkvæmt rammaáætlun.

Í ljósi breyttra forsenda hefur Landsnet hafist handa við að undirbúa tengingu yfir Sprengisand. Út frá henni er áformað að styrkja byggðalínuna til vesturs og austurs, að Blöndu- og Fljótsdalsstöð. Þannig verði hægt að auka flutningsgetu kerfisins, rekstraröryggi, sveigjanleika, hagkvæmni og losna úr þeirri óviðunandi stöðu sem rekstur kerfisins er í nú.

Breytt verklag við undirbúning

Kerfisáætlun Landsnets fer í umhverfismat áætlana í fyrsta sinn á árinu 2014. Þar munu helstu sviðsmyndir félagsins fá opinbera umfjöllun á forsendum umhverfissjónarmiða. Þar verður m.a. samanburður á leiðum sem koma til greina til styrkingar norður-suðurtengingarinnar. Vinna við útfærslu einstakra framkvæmda stendur einnig yfir þar sem m.a. eru bornir saman mismunandi valkostir út frá sýnileikagreiningu og fleiri umhverfisþáttum. Með því að birta niðurstöður þessara greininga er hagsmunaaðilum sýnd skýrari mynd af þeim kostum sem eru í boði, óháð því hvað Landsnet hyggst leggja til sem bestu lausnina.

Eigi styrking meginflutningskerfisins að ná fram að ganga, með tilheyrandi þjóðhagslegum ávinningi, er nauðsynlegt að stjórnvöld móti annars vegar stefnu í jarðstrengjamálum,  sem sátt getur skapast um, og komi hins vegar betri skikk á leyfisferla vegna framkvæmda Landsnets. Verkefni stranda nú mjög víða í ferlinu því skipulagsvaldinu er dreift, ólíkt því sem er t.d. í Noregi þar sem ein stofnun fer með skipulagsvald vegna raforkuframkvæmda.